Að læra leira og lita, þið ættuð bara að vita
Í dag er sautjándi fyrsti skóladagurinn minn í röð. Fyrir sautján árum fór í full tilhlökkunar og kvíða upp á aðra hæð Austurbæjarskólans og hóf nám í FON (forskóli Nínu). Þar gerðist nú markt merkilegt..en þó markverðast að ég gubbaði á vettlingana mína...kornflexinu sem ég hafði lokið við um 15 mínútum áður. Nína varð reið...sagði að ég hefði alveg getað hitt í vaskinn sem stóð við hliðina á mér. Svo var ég send heim á Leifsgötuna með vettlingana í bréfi. Þórgunnur amma varð alveg forviða á Nínu og ég eyddi deginum hjá henni í góðu yfirlæti. Gubbaði bara einu sinni í viðbót. Í dag gubbaði ég hinsvegar ekki neitt. Ég setti bara upp minn menntasvip og spurði kjarnyrtra en þó heimspekilegra spurninga. Það merkilega var samt að sonur hennar Nínu er einmitt með mér í þessum kúrs...og viti menn...hann er að afla sér kennsluréttinda, svo að hann geti orðið önnur kynslóð kennara sem rekur vesalings krakka heim sem borðuðu yfir sig af kornflexi.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home