mánudagur

Of lengi heima?

Sá grunur hefur verið að læðast að mér undanfarna daga að fæðingarorlofið sé bara að fara að verða ágætt. Tek ég tvö dæmi því til stuðnings.
Mágur minn hafði grillað þessar dýrindis nautasteikur og var slektið sest til borðs og farið að kjamsa á kjötinu. Nói sprellaði allsber á gólfinu á meðan, alsæll að venju. Þá er mömmu litið á snáðann og sér hvar hann er búin að gera á sig, velta sér upp úr glaðningnum og smyrja gulraótarappelsínugulum klípum um sig og leikföngin sín. Ég og Guðni þurftum auðvitað að fresta borðhaldi og þrífa kallinn og dótið. Þegar því er að mestu lokið spyr systir mín hvort ég sé ekki búin að missa lystina! Ég hélt nú ekki, hafði einmitt verið hugsað með hlýhug til steikarinnar allan tímann.
Annað dæmið er svo þegar ég var eitthvað að spássera um íbúðina og Margrét Rós sagði, "haha...þú ert með annað brjóstið uppúr haldaranum". Mín hafði sumsé gleymt að smella gjafahaldaranum aftur eftir síðustu gjöf...sem hafði verið fyrir um klukkutíma eða svo.
Niðurstaða mína er þessi...þegar maður hugsar um steik yfir smurningunni og er hálf-brjóstarhölduð með gesti...þá er maður tilbúin til að fara að vinna á ný. Ellegar verða að kæfu í blettóttum kvennahlaupsbol og öngvum haldara. Ég sé þó bjargvættinn innan seilingar en ég ætla að fara að kenna í MH í lok sumars. Þá kemur nýtt vandamál. Það er aðskilnaðarkvíðinn við litla barnið sem ég held að hafi bara fæðst í fyrradag!

3 Comments:

At 14/6/06 10:03 f.h., Blogger Hildur said...

Til hamingju með kennarastöðuna, frábært að þú fékkst stöðu í framhaldsskóla eins og þú vonaðir!

Annars finnst mér þú ekkert hljóma eins og nein kæfa. Ég er oft með annað brjóstið bara beinlínis upp úr bolnum, ekki síst ef gesti ber að garði. Ég sem er barnlaus og útivinnandi!

 
At 15/6/06 1:45 f.h., Blogger tótla said...

HAHAHA, Ásdís kæfa... já ég held það sé kominn tími til að fara út á vinnumarkaðinn aftur:) til hamingju með MH stöðuna, mér líst vel á þetta. Frábært að það var ekki Versló samt.

 
At 9/7/06 11:25 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju með vinnuna :) Mér finnst þú bara töff. Ég er líka oft með ósmelltan gjafahaldarann, ýmist öðrum eða báðum megin ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home