fimmtudagur

Þessu bjóst ég ekki við
Við skötuhjúin vorum á veitingastaðnum Gullnu bogarnir eða McDonald's eins og svo margir kjósa að kalla hann. Sem við vorum að kyngja síðustu bitunum kom aðvífandi ungur þjónn uppdubbaður í júníform veitingastaðarins. Hann hélt á bakka með nokkrum pappaglösum og spurði sí svona, "má bjóða ykkur kaffi?". Við vorum hvummsa og rétt gátum afþakkað boðið fyrir hissleika, enda ekki kaffidrykkjufólk. Ég spurði nú ekki hvort þetta væri í boði hússins. Mér lá við að biðja um reikninginn og þakka yfirkokkinum fyrir þessa ljúffengu kjúklingasteik með sesambrauði og salatblaði sem ég hafði gætt mér á. Ég gef staðnum fjórar stjörnur af fimm fyrir góða þjónustu, samkeppnishæfni í verði og bragðgóðan mat. Dreg eina frá fyrir framsetningu, frauðplast og pappaglös eru ekki alveg high class.

mánudagur

Lengi býr að fyrstu gerð
Í dag pantaði ég mér tíma hjá tannlækninum mínum honum Jónasi. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem ég geri það á ævi minni. Þetta er búið milli mín og mömmu. Hún neitar að fara með mig til tannsa. Klinkunni, sem er líka gift tannsa, varð um og ó og kommentaði sérstaklega á að nú hefði loks verið klippt á strenginn. Þó fyrr hefði verið myndi einhver segja. En ekki ég. Ég mun ávallt hugsa hlýlega til mömmu og kortsins hennar þegar ég þarf á tannlækni að halda í framtíðinni.