þriðjudagur

Dáðadrengur
Guðni tilkynnti mér stoltur að hann hefði hér á árum áður orðið tvöfaldur meistari í myllu á Myllumóti KFUM í Árbæ (Yngri deild). Sú athugasemd var ekki til þess fallinn að vekja lotningarfulla aðdáun, en ég fékk hinsvegar ágætt hláturskast og lét óvart eitthvað út úr mér um nördaskap. Já hann er sko enginn ónytjungur hann spúsi minn.

mánudagur

Sá einn veit er víða ratar...
Á þýskri tungu er til orð eitt: Wanderlust. (Gæti útlagst fararþrá). Gott orð þar á ferð, svo gott að engilsaxar fengu það að láni. En þetta blogg er ekki um orðsifjar. Ég er nefnilega farin að fá smá Wanderlust í kroppinn, enda mánuður til Thailandsfarar. Þó verð ég að segja að ég hef einnig aðra tilfinningu. Við skulum kalla hana *Wanderangst. Hún lýsir sér svo að ég er smá smeik við Asíu. Í raun hef ég aldrei komið út fyrir hinn vestræna heim, ef frá er talið smá hopp út úr loftkældri rútu inn í Mexíkóska regnskóginn. En auðvitað er þetta bara þessi týpíska hræðsla við hið ókunna. Proust sagði eitthvað á þá leið að ferðalög væri ekki það að sjá nýtt landslag, heldur að eignast ný augu.