Trönuhjallinn fær yfirhalningu
Við hjónin höfum hug á að breyta um stíl í íbúðinni okkar og ætlum að snúa okkur til naumhyggju. Allir vasar, stjakar, dúkar, blóm og lampar verða fjarlægðir svo eftir standa bara allra nauðsynlegustu húsgögn og naglfastar myndir. Ástæðan er ekki sú að okkur líki ekki lengur við hlutina okkar. Nói er hinsvegar farinn að skríða og eigum við í fullu tré við að hlaupa til og frá með allskyns muni. Krúsumallinn er reyndar orðinn svo skæður að við þyrftum helst að ganga um allsber, gleraugnalaus og krúnurökuð ef við ættum að komast í gegnum daginn án meiriháttar skemmdarverka og fjörtjóns. Ég kenni Guðna alfarið um að hafa búið til svona aktíft barn, ég var þæg og föndraði alla mína barnæsku.