fimmtudagur

Sigurganga á enda?
Nú eru aðeins nokkrar mínútur í MR-Borgó. Ég verð að segja að ég er nokkuð stressuð. Borghyltingar voru ægilega góðir í síðasta þætti. En maður vonar það besta en býst við því versta. Annars þurfum við MR-ingar bara að straua svörtu fötin fyrir morgundaginn.

Ásdís á tali við nemanda
Á: Já, þetta gengur auðvitað ekki svona. Við skipuleggjum okkur bara vel í næstu viku og tökum þetta með trompi!
Nemandi (horfir undarlega á Á.): En það er bannað að koma með nammi í skólann!

Ég var augnablik að átta mig á svari nemandans, en fattaði svo að það tromp sem hann var að hugsa um er súkkulaði og mér var meira en lítið skemmt. Tiltalið fór fyrir lítið þegar ég gat ekki haldið andliti.

mánudagur

Tips for travellers
Mér er skemmt yfir öllu sem stuðlar eða rímar. Ég rakst á þessi varnaðarorð til ferðlanga á framandi slóðir:
Peel it or leave it!
Þetta á við um ávexti og grænmeti. Sem sagt, ekki borða það ef þú getur ekki skrælt (er að skræla veik eða sterk sögn?) það.

1666-2004
Ég var að lesa í passíusálmunum eins og heldri kvenna er von og vísa á föstunni. Í fyrsta sálmi segir Hallgrímur:
Hvað heftir framar hneyksli og synd
en Herrans Jesú blóðug mynd?

Athyglisvert í ljósi umræðu um Passíu Mel Gibsons þar sem blóðið er víst í algleymingi. Ekki það að ég sé svo merkileg að vera boðin á einhverja forsýningu þannig að ég get ekkert tjáð mig um myndina. Ein rosa beisk.

sunnudagur

Hjónabandsspillir?
Hafi ég einhverntímann efast um að Gunnar í Krossinum væri með fulle fem þá þarf ég ekki að efast lengur. Hann ýjaði að því við Guðna að konan hans gæti haft slæm áhrif á trúarlíf hans og andlegan velfarnað. Þetta gerði hann án þess að hafa nokkurntímann hitt mig eða heyrt nokkurn skapaðan hlut um mig og fannst samt nauðsynlegt að spyrja Guðna, í þeirra fyrsta og mjög stutta samtali, hvort ekki væri erfitt að eiga mig fyrir konu. Reynir hann að fá mann til að hugsa neikvætt um hjónaband sitt?
Auk þess sagði hann á samkomunni sem Guðni hlýddi á að allir sannkristnir væru hægrimenn! Ég er auðvitað mjög hissa, enda hef ég greinilega misst af þeim kafla í guðspjöllunum þar sem Jesús talar um pólitík.