föstudagur

Forsetakjör
Á morgun fæ ég í fyrsta sinn að kjósa mér forseta. Ég býst nú samt ekki við að forsetaskipti verði í ágúst komanda. Það væri þó spennandi, sérstaklega fyrir mig persónulega, enda er ég ekki vön öðru en að stórviðburður gerist í mínu lífi við forsetaskipti. Vikan þegar Vigdís tók við var heldur annasöm fyrir mig, enda ákvað ég að fæðast þá, og hef því aðeins haft tvo forseta. Síðari forsetaskiptin voru ekki síður skemmtileg og viðburðarík, en Ólafur sór eið sinn í sömu viku og ég kynntist Guðna. Reyndar man ég eftir því að okkur var illa við nýkjörin forseta, sem ég hef þó ákveðið að veita atkvæði mitt á morgun. Hverjum hefði dottið það í hug? Ekki mér! Gott ef valdahroki Davíðs hafi ekki grætt atkvæði mitt fyrir Ólaf. Kannski langsótt hefnd.

fimmtudagur

Kúlaðasta nafnið?
Það þarf snilling til að setja saman svona hljómfagurt nafn: Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jaap de Hoop Scheffer, sagðist í dag hafa fulla trú á öryggisvörslu vegna NATO-fundarins (af Mbl)

Dáti á Miklubraut?
Sem ég var að keyra yfir Kringlumýrarbraut sá ég glitta í hermann í júníformi. Þótti mér hann arka eitthvað kunnuglega. Sá að þar var komin friðarsinninn Hildur Edda klædd í kamóflass. Ég veit að verkstjórar í unglingavinnuni þurfa að halda heraga...en er þetta ekki of langt gengið Hildur mín? Nema þá að daman hafi verið á gæs.

þriðjudagur

Neyðin kennir naktri konu að spinna
Ég er undirokuð af knattspyrnu og eina leið mín til að eiga lágmarkssamskipti við eiginmann minn er að horfa á hana. Ég er síður en svo hreykin af því að viðurkenna það en ég hef horft á einn eða tvo leiki. Reyni þó að koma með pirrandi komment og spurningar til að fá viðbrögð frá Guðna (neikvæð athygli er betri en engin). Nokkur dæmi: Af hverju sitja engir áhorfendur þarna?" "Af hverju er boltinn ekki svartur og hvítur?" "Voðalega eru þeir eitthvað æstir yfir að tapa!" Svo er auðvitað klassík að dást að limafegurð leikmanna í tíð og tíma. Múhahaha!

sunnudagur

Kallið mig kjána
En ég hef gaman af garðyrkjuþáttunum á Ríkissjónvarpinu. Kannski af því ég finn fyrir samkennd með hinum ræktendunnum. Hér á bæ eru tvær gerðir af pálmum, einn ástareldur og fimm basilíkuplöntur sem ég fræjaði í vor. Basilíkurnar eru dintóttar mjög en allt hafði þó gengið eins og í sögu og ég farin að vænta uppskeru. Hafði hugsað mé að nota þær í sósur og á pizzur. En aðstoðargarðyrkjudrengurinn fattaði ekki að vökva eina einustu plöntu meðan ég var úti í heimi og fór þetta afar illa með matjurtirnar. Menn tala um uppskerubrest.