mánudagur

Grillaðar grísalundir


Gott frí er að baki. Bleiku baki. Af hverju? Jú, kallinum fannst brúnkan eitthvað standa á sér og ákvað að lækka varnarstuðulinn niðrí 10. Kom með eitthvað efni sem á stóð 10 og gott og vel. Við mökuðum þessu um líkamann í von um að nú færi eitthvað að ganga í brúnkumálum. Íslendingar virðast mæla gæði sumarfrís í brúnku. Sem er óþolandi fyrir fólk eins og okkur Guðna sem finnst leiðinlegt að liggja í sólbaði í tvær vikur. Nema hvað. Seinna um daginn voru leggir og læri, bak og brjóst orðin heldur bleik og um kvöldið var sviði farinn að gera vart við sig. Fóru þá að renna tvær grímur á mig og fékk ég að líta á brúsann. Viti menn, þetta var þá grillolía!! Svona sólarolía með margföldunaráhrif og smá vörn líka. Kallinn ætlaði að steikja okkur lifandi. En sem betur fer hafði úthaldið í sólinni verið lítið þann daginn eins og okkur er von og vísa og bruninn ekki slæmur. Í næsta fríi ætlum við bara að koma hvít heim og láta "hva þú ert ekkert brún...vastu ekki í sólinni?" sem vind um eyru þjóta.
Guðni kvartar undan því að ég bloggi bara um hans mistök en ekki mín. Elskan, nú bæti ég úr því. Ég villtist á hraðbrautum á leiðinni frá Valencia og strákarnir fengu þriggja tíma auka rúnt um spænsk sveitahéruð. En ég tel smá rugling bara sem minniháttar aukaverkanir eftir að hafa verið stödd í miðju 5 akreina hringtorgi með hálfan her flautandi á mig. Það voru sko ekki jólin get ég sagt ykkur!