laugardagur

Strákamynd
Í gær píndi ég mig til að horfa á Apocalypse now, þ.e. þangað til ég nennti ekki meir þegar um 15 mínútur voru eftir. Ég rembdist við að horfa, ekki bara af því hún á að vera svo góð heldur vegna þess að ég neyddist eitt sinn til að klóra mig í gegnum Heart of Darkness, sem myndin er byggð á. Ég komst að því í gær að bæði bókin og myndin falla undir skilgreiningu mína á strákavælu. Orðið strákamynd er einhverskonar svar við orðinu kellingamynd. Mynd búin til af kalli fyrir kalla og um kalla. Þar er til dæmis ein regla sú að það er bannað að brosa í strákamyndinni nema þá ef vera skyldi kaldhæðnislegt bros eða útaf klámbrandara. Nei, ég þarf sko rómantík til að nenna að horfa á sjónvarpið. Íranska myndin á sunnudaginn var, það var sko skemmtileg mynd. Falleg, raunsæ og hjartnæm!

þriðjudagur

Versla inn
Í dag var framhaldsnámskynning í HÍ. Ég hef farið áður á svona kynningu og mér dettur alltaf í hug Kolaportið eða einhver markaður. Eins og fólk sé svona að leita að hagstæðasta boðinu. Bestu básarnir eru með gratís nammi. Sumir eru ásetnir, á öðrum er bara einmanna kennari við borðið (sem var einmitt málið við enskubásinn þegar ég labbaði þar framhjá). Var eitt andarak að hugsa um að þykjast langa í masterspróf í ensku til að gleðja gamlan kennara. Kaupa hjá honum sakir kunningsskapar. Hætti svo við. Mundi að þetta var ekki Kolaportið og maðurinn doktor í málvísindum en ekki harðfiskssali.

Skemmtileg sjón
Í dag sá ég þegar Færeyskur stórmeistari í skák stóð sveittur við að tefla fjöltefli við tugi barna. Ekki ónýtt það.

mánudagur

Hvað borgar þú í marga lífeyrissjóði?
Ég vildi bara benda á þá áhugaverðu staðreynd að ég er í 4 störfum í augnablikinu. Þetta er auðvitað ekkert sniðugt. Krefst skipuleggingar. Skattkortslimbó. Ég er sennilega að fara að bæta við þeirri fimmtu. En það er þó tímabundið verkefni.

Nammifastan...
...gengur hræðilega illa. Ég er sannarlega föst í viðjum sykursins. En góðu fréttirnar eru þær að ég fann uppskriftina að músinni og bjó til risaskammt sem var borðaður af nokkrum súkkulaðisjúkum kellum.