fimmtudagur

Martröð í paradís
Ekki datt mér í hug að litla friðsæla paradísareyjan Phi Phi ætti eftir að koma á forsíðu Fréttablaðsins eins og gerðist í fyrradag. Þetta var mynd af körfuboltavelli sem hafði verið breytt í þyrlupall og verið var að flytja slasaða á brott. Við Guðni örkuðum einmitt þar yfir í sumar þegar við vorum að leita að gistingu. Við leigðum okkur lítinn kofa sem var varla nema tuttugu metra frá ströndinni. Það er nokkuð ljóst að sá kofi stendur ekki ennþá. Byggðin er öll á 100-200 metra breiðri og kílómetra langri sandræmu sem er á milli tveggja kletta. Það er því erfitt að flýja nokkuð, enda er tala látinna þaðan há miðað við stærð eyjunnar.

miðvikudagur

Loksins...
...hef ég getað lokað jólabókunum nógu lengi til að blogga. Af fyrri reynslu var ég viss um að ættingjar mínir myndu senda mig í bókajólaköttinn og fór því á bókasafnið á Þorlák. En viti menn, ég fékk Klisjukenndir, PS. ég elska þig og Ellefu mínútur. Búin með PS...fín, en alveg hræðilega illa þýdd...fáið ykkur hana á ensku. Nema þið skiljið hvað refhvörf eru! (orðið kemur fyrir í bókinni og á að koma út úr munni ungrar konu! As if.) Auk þess fékk ég meðal annars frá minni gjafakreisí fjölskyldu: ilmvatn, krem, nærföt (þessi frá ömmu auðvitað), straujárn, nælu, borðgrill, handklæði, konfekt, skál, lak, tölvutösku, dekurdag og margt annað huggulegt. Ég slæ hátt upp í fimm ára einkabarn í pakkafjölda. Takk fyrir mig.