miðvikudagur

They call it puppy love
Það er kærustupar í bekknum mínum. Voða falleg bæði tvö. Og þegar ég horfi á þau langar mig mest að verða aftur orðin sextán. Í gær var ritunarverkefni. Mér var litið yfir bekkinn og sá að allir sátu hljóðir og skrifuðu. Nema stelpan og strákurinn. Þau sátu hlið við hlið, eins og þeirra er vani, og horfðu djúpt í augu hvors annars. Svipur þeirra var þrunginn alvörugefinni ástríðu og augnaráðið dularfullt eins og ungum elskendum einum er lagið. Ég var greinilega þriðja hjólið þar sem ég stalst til að fylgjast með þeim. Þau voru lang lengst inni í stofunni, enda erfitt að skrifa þegar maður er ástfanginn. *dæææææs*

sunnudagur

Didda í landinu helga
Já það er sem við manninn mælt, daginn sem systir mín stingur niður fæti í Ísrael koma góðar fréttir þaðan í fyrsta sinn í allaveganna nokkra mánuði. Ekki veit ég þó hvort hún og Abbas hafi átt einhver samskipti, enda fékk hún ströng fyrirmæli um að halda sig frá Gaza. Didda er í krossför til að bera út fagnaðarerindi áhrifa aeromonas salmonicida og moritella viscosa í sandhverfu. Það er mér hins vegar ráðgáta af hverju fólk þarf að funda í stríðshrjáðu landi. Stúlkan var samt mest uggandi yfir að geta ekki uppfyllt óskir systur sinnar sem er haldin trúarbragðaduttlungum: flösku af Jórdan-vatni bitte schön. Og nei, Dauðahafsvatn dugar ekki!