miðvikudagur

Hjálpi mér allir heilagir
Sjúkrasaga Guðna hefur verið mikil og dramantísk síðustu vikur. Hann byrjaði sumarið á að kaupa sveppalyf fyrir tugi þúsunda vegna sýkingar í litlutánni. Svo var það nú bakvesenið sem sér vart fyrir endan á en drengurinn mætir nú í strekkingu einu sinni á dag til að teygja á lundunum. Les fillets de l´homme! Vegna verkjanna hefur hann verið að taka öflug verkjalyf sem sögð eru geta valdið magasárum. Því varð mér ekki um sel þegar hann lét mig strjúka yfir magann á sér áðan. Rétt fyrir ofan nafla var að finna einhverskonar gúlp eða þykkildi undir húðinni. Guðni fór því á heilsugæsluna þar sem læknirinn vildi fá hann aftur eftir viku til að athuga málið en líka til að sprauta hann fyrir heilalömun! Hvað verður það næst? Jammendá!

Langur vegur
Þetta skilti við vegaframkvæmdir hjá BSÍ hefur kætt mig síðustu vikur:
Vatnsmýrarvegur lokaður austan Alaska.

þriðjudagur

Kennslustund í dönsku
Amman er komin til landsins. Að þessu sinni kemur hún með "unga" frænku sína með sér. Rétt um fertugt og heitir Susanne. Hún talar ekki íslensku þannig að ég hef síðustu daga verið að reyna að segja eitthvað gáfulegt á dönsku. Það gengur svona svona. Sem betur fer dregur mamma mig í land ef mér verður orðaskortur. Meðal orða sem ég hef strandað á: þríhyrningur (trekant! bien sur), orgel, viti og sundbolur (badedragt segir mamma).

sunnudagur

Halltu ró þinni í Trönuhjalla 5
Flutt er í stigaganginn fjölskylda af slavneskum ættum með tinnusvart hár og löng gáfuleg nef. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þau bera hið skemmtilega ættarnafn Panic. Herra og frú Ofsahræðsla eiga lítinn dreng, og af vaxtarlagi konunnar mun bætast við í hóp Ofsahræðslu-fjölskylunnar innan skamms. Reyndar hafa kunnugir reynt að skemma fyrir mér skemmtunina og segja að Panic sé borið fram Paníts eða eitthvað. Ég læt það ekki á mig fá og fer alltaf að brosa þegar ég horfi á dyrabjölluna þar sem stendur stórum stöfum Panic!