laugardagur

Bros dagsins...
...fær grey maðurinn sem átti að gera við uppþvottavélina á kaffistofunni hjá systur minni. (hún vinnur á Keldum, tilraunastöð ríkisins). Hann algerlega harðneitaði að stíga inn fyrir hússins dyr, því þar væri allt morandi í miltisbrandi. Þegar hann hafði verið hughreystur fékkst hann til að koma inn í kaffistofuna. En hann taldi sig vera í bráðri hættu ef hann vogaði sér inn á kontor. Ekki veit ég hvernig hann útskýrði að starfsmenn væru allir sprelllifandi og án einkenna. Kannski heldur hann að Miltisbrandur sé köttur sem fær að kúra í kjöltum líffræðinganna á meðan þeir skrifa skýrslur, og klórar bara ókunnuga iðnaðarmenn.

miðvikudagur

Kósý jól
Fyrir margt löngu eignaðist ég geisladisk með hljómsveitinni Kósý sem var vinsæl hér um árið. Þetta er ennþá uppáhalds aðventudiskurinn minn. Ekki fer mikið fyrir hátíðleika heldur er áhersla lögð á glens og gaman. Diskurinn inniheldur meðal annars lögin Rokkum rykið af jólunum, Jól á Hawai og Satisfaction. Hann er orðinn jafnstór hluti af jólunum eins og jóladiskurinn með Richard Kleiderman (?) sem pabbi heimtar alltaf að sé á fóninum undir borðhaldi á aðfangadagskvöld. Vonandi eigið þið líka Kósý jól!