laugardagur

Sjálfsþurftarbúskapur
Nú er ég að kynna mér ræktun spínats. Ég ætla að helga mér nokkra fermetra í Grímsnesinu, flytja þangað mold og athuga hvort ekki vaxi eitthvað ætt. Hafiði einhver góð ráð um slíkt? Málið er nebblega að ég ólst upp í 101 og börn úr miðborginni eiga enga skólagarða og fá aldei að rækta kál, sem er ósanngjarnt. Ég kann því ekki að rækta. Guðni aftur á móti veit meira um málið enda er hann úthverfarindill. En hann ræktaði aldrei spínat.

miðvikudagur

Um bók sem ég hef ekki lesið
Margir hafa spurt mig hvort ég sé ekki búin að lesa Da Vinci lykilinn. Nei. En fyrir þá sem hafa gert það og hafa brennandi spurningar þá er þetta góð lesning.

þriðjudagur

Gamalt og gott
Þegar ég var barn þá fannst mér Tomma hamborgarar á Grensásveginum sameiningartákn alls hins góða og fallega í heiminum. Mér fannst hamborgararnir ljúffengir. Þar var stór tuskuapi. Þar var lítið bíótjald. Þar var meira að segja einhver hringekja eða eitthvað svona tæki sem maður gat farið í ef mamma manns var í stuði. Sannkallað himnaríki á jörðu fyrir einfalda sál. Ég kættist því þegar ég heyrði af nýju hamborgarabúllunni hans Tomma. Ég fór áðan og þar var enginn tuskuapi en þar voru mjög safaríkir og góðir borgarar. Og Tommi að grilla.

Nokkuð skondið
Ég er á námskeiði hjá Endurmenntunarstofnun Háskólans í tvo daga. Og ekki nema nokkrir mánuðir síðan ég lauk námi. Námskeiðið er í viðburðastjórnun og bara frekar fróðlegt.

mánudagur

Smá ljóð sem mér datt í hug

Tapað /fundið
Þú vorgræna fold
ert beðin um að vitja áðnamaðkanna þinna
sem liggja skrælnandi á stéttinni minni.
Lóuharðfiskur.

sunnudagur

Jól í apríl
Það þótti heldur kindugt þegar mamma dró upp hamborgarhrygg úr kistunni í gær. En við borðuðum hann með bestu lyst engu að síður. Brúnaðar kartöflur og læti. Hálfgerð helgispjöll eiginlega.

Áætlanagerð
Undanfarna daga hef ég sökkt mér niður í Lonely Planet bókina mína um Thailand. Plön eru farin að skýrast og kominn hugur í fólk (ekki seinna vænna því aðeins eru um 3 og hálfur mánuður til stefnu). Við Guðni munum byrja á ströndinni í eina viku og hitta svo Bendt og sennilega eina vinkonu hans í kringum 12 ágúst í Bangkok. Þá er hugmynd mín að ferðast um norðrið, til borgar er nefnist Chiang Mai. Heimsækja fjallaþjóðflokka við landamæri Myanmar og sitthvað fleira. Enda svo í Bangkok. Ef ég væri ekki ég þá myndi mér langa með mér í ferðina.