Ást við fyrstu sýn?
Það er ákveðin hefð fyrir því í minni ætt að finna ástina snemma á lífsleiðinni en ef til vill er þó 5 mánaða full snemmt. Við vorum í ungbarnasundi og Nói litli átti erfitt með að gera æfingarnar sínar af því að við hlið hans var hin sex mánaða Þórhildur sem honum leist svona líka vel á. Þórhildur er pattaraleg og stutt hnáta. Kallinn er semsagt fyrir holdugar eldri konur í sundfatnaði. Þegar sú stutta veitti honum ekki næga athygli tók hann upp á því að skvetta á hana. Ég sagði honum að vera nú svolítið minna obvíus! Annars stendur Nói sig vel í sundinu, þegar hann getur einbeitt sér fyrir Þórhildi, en við foreldrarnir erum tossarnir í bekknum, búin að missa hann tvisvar með fésið ofaní og gleyma snuðinu. Guttinn lætur það ekki á sig fá og ræður sér varla fyrir kæti.