fimmtudagur

Þegar hungrið sækir að...

Þegar ég var ólétt kom ég oft glorsoltin úr jógatíma og þurfti mat NÚNA og STRAX. Þannig uppgötvuðum við hjónin alveg hreint framúrskarandi stað í Borgartúninu (rétt hjá jóganu) sem heitir Súpubarinn. Með honum öðlast hugtakið bensínstöðvamatur hærra veldi og nýjar víddir því hann er inni á stöðinni þadddna...æi við gatnamótin.
Súpurnar eru margvíslegar, ítalska kjötbollusúpan er sennilega í uppáhaldi. Ekki skemmir fyrir að bólugrafnir unglingar koma hvergi nærri matseldinni heldur eru framreiðendur alveg sérstaklega natnir við vinnu sína og dreyfa rifnum osti yfir súpurnar eins og rósablöðum fyrir keisaraynju. Brauðið sem gjarnan er borið fram með súpunum er smurt af kostgæfni og ástríðu. Ég elska súpur, og þessar eru góðar.

sunnudagur

Það veltur á Nóa


Eftir nokkurra vikna æfingar gerðist það í dag að Nói Pétur Á. Guðnason snéri sér í fyrsta sinnið. Beið með það þangað til við foreldrarnir og amman sáu til. Að sjálfsögðu uppskar strákur mikið hrós og sennilega er hann fyrsta barnið til að læra að snúa sér, miðað við fagnaðarlætin. Eftir það var hann óstöðvandi við að æfa þetta nýja bragð.