laugardagur

Upprisinn
Eftir að hafa sagt skilið tímabundið við bloggheima hef ég nú tekið fjölda áskoranna (jah, allaveganna einni!) og hafið blogg að nýju. Ástæður bloggleysis voru tvennar. Í fyrsta lagi var ég upptekinn við að verða kennslufræðingur. Og því er nú lokið. En síðustu tveir mánuðir eru búnir að vera strembnir.
Önnur ástæðan er öllu leiðinlegri. Tölvan mín hefur verið greind (af mér) með mótþróaþrjóskuþroskaröskun. Og ef þið haldið að ég sé að skálda þetta orð þá skulið þið bara googla það. Reyndar hefur það hingað til verið notað um fólk. Mótþróin lýsir sér þannig að hún vill ekki opna helming netsíðna, og þar með talið commentakerfið mitt. Ég get því ekkert séð hvað þið eruð að babbla. Kunningi úr tölvugeiranum talar eitthvað um proxy. Proxy! Nú get ég farið að vinna í málunum og kynnt mér leyndardóma proxys, góð leið til að slaka á eftir próf!